Tap breska bankans Northern Rock á síðasta ári nam 1,4 milljörðum punda, eða um 230 milljörðum króna. Þrátt fyrir það mun bankinn greiða ákveðnum hópi „ nauðsynlegra starfsmanna“ bónusgreiðslur fyrir frammistöðu síðasta árs.
Bankinn varð eitt fyrsta fórnarlamb alheimskreppunnar og var þjóðnýttur í fyrir um einu ári. Í upphafi stóð til að bankinn myndi greiða breska ríkinu til baka það fé sem lagt var í rekstur hans eins fljótt og unnt væri. Það hefur breyst og mun bankinn auka enn á útlán sín á næstu tveimur árum.
Vanskil á lánum bankans hafa aukist og eru nú 2,92% þeirra, sem eru með fasteignalán hjá bankanum, að minnsta kosti þrjá mánuði eftir á í greiðslum. Í september í fyrra var þetta hlutfall 1,87%.