Eystrasaltsríkin þrjú, Eistland, Lettland og Litháen, standa frammi fyrir alvarlegri efnahagskreppu, en þrátt fyrir það ætla stjórnvöld ríkjanna að verja fastgengi gjaldmiðla þeirra gagnvart evrunni. Í frétt Bloomberg er haft eftir hagfræðingum að sú stefna geti reynst dýrkeypt.
Spár gera ráð fyrir því að verg landsframleiðsla Lettlands muni dragast saman um 12% á þessu ári, Eistlands um 9% og Litháens um 5%. Gjaldmiðlar landanna eru tengdir evrunni í gegnum myntbandalag Evrópusambandsins og hafa verið um nokkurra ára skeið. Til að viðhalda gengi gjaldmiðils síns innan fyrirfram ákveðinna marka þurfti Lettland að eyða um 1,3 milljörðum bandaríkjadala, um 140 milljörðum króna, frá því að efnahagskreppan hófst fyrir alvöru í október. Á síðustu 11 vikum ársins 2008 dróst gjaldeyrisforði ríkisins saman um 25%, en á sama tíma minnkaði forði Eistlands um 5% og Litháens um 3,2%.
Segja hagfræðingar að með því að viðhalda föstu gengi við evru sé líklegt að næstu ár muni einkennast af litlum hagvexti, launalækkunum og verðhjöðnun. Hagfræðingurinn Paul Krugman segir gengi lettneska latsins of hátt gagnvart evru og því séu mistök að viðhalda því. Líkir hann stöðu Lettlands við Argentínu, sem átti við alvarlegan efnahagsvanda að stríða fyrir nokkrum árum, m.a. vegna fastgengis við bandaríkjadal.