Helgi Magnús: Davíð sendi bréfið

Davíð Oddsson í Kastljósinu
Davíð Oddsson í Kastljósinu

Helgi Magnús Gunnarsson, saksóknari efnahagsbrota hjá embætti ríkislögreglustjóra, staðfestir í samtali við mbl.is að Davíð Oddsson, seðlabankastjóri, hafi í desember sl. sent efnahagsbrotadeildinni bréf um hlutabréfakaup sjeik Mohamed Bin Khalifa Al-Thani í Kaupþingi. Áður hefur komið fram að umrætt bréf hafi verið nafnlaus ábending til lögreglunnar.

„Úr því að hann gaf það upp í þessu samtali í Kastljósinu, já ég get staðfest að hann sendi bréfið,“ segir Helgi Magnús, sem staddur er í Toronto í Kanada. Í kjölfarið sendi efnahagsbrotadeildin málið til Fjármálaeftirlitsins til rannsóknar. Málið er nú hjá Fjármálaeftirlitinu.

Davíð sagði í viðtalinu í Kastljósinu að sér hefðu borist ábendingar um málið en bréfið hefði hann skrifað lögreglunni 2. desember. Þetta hefði valdið breytingum í skilanefndum Kaupþings og víðar.

Eins og fram hefur komið í Morgunblaðinu fjármagnaði Kaupþing banki kaup sjeiksins á hlutabréfum í bankanum í september á síðasta ári en sjeikinn eignaðist 5% í Kaupþingi að verðmæti 26 milljarða. Lánin fóru samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins í gegnum tvö félög á Jómfrúreyjum.

Fjármögnun hlutabréfakaupanna mun hafa verið með þeim hætti að tvö félög, sem skráð eru á Jómfrúreyjunum, lánuðu þriðja félaginu sem fjármagnaði Q Iceland Finance ehf. sem keypti síðan bréfin í Kaupþingi. Félögin á Jómfrúreyjunum fengu lán fyrir þessari fjármögnun hjá Kaupþingi með veð í bréfunum sjálfum. Annað félagið mun vera í eigu Ólafs Ólafssonar, sem var annar stærsti eigandi Kaupþings á þeim tíma.

Ólafur Ólafsson sagði í samtali við Morgunblaðið hinn 20. janúar sl. að Al-Thani hafi lagt fram ábyrgðir að upphæð 200 milljónir evra vegna væntanlegra viðskipta sinna við Kaupþing og hluti þeirra hafi verið notaður til ábyrgðar fyrir láni frá Kaupþingi beint til Q Iceland Finance, samtals 12,8 milljarðar króna. Hinn helming kaupverðsins lánaði Kaupþing einnig, en hann var lánaður til félags á bresku Jómfrúreyjum, skráð á Ólaf Ólafsson, sem lánaði féð síðan áfram til Al-Thani. Þannig var Al-Thani ekki í persónulegum ábyrgðum fyrir helmingi lánsins, 12,8 milljörðum króna. Ólafur sagði að hann sjálfur hefði ekki haft neinn ávinning af þessum viðskiptum.

Hann sagði ennfremur að Al-Thani hefði greitt 12,5 milljarða króna af láninu sem var með ábyrgðum hinn 8. október. Þetta hefði hann gert eftir að hafa keypt vel á þrettánda milljarð króna fyrir 50 milljónir dala sem hann hefði átt á bankareikningi í Kaupþingi í Lúxemborg. Þannig nýtti hann sér mikið gengisfall íslensku krónunar í neyðarlagavikunni til að kaupa um 250 krónur á hvern dal. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins sá Kaupþing í Lúxemborg um að útvega honum krónur á því verði og bankinn tók á sig allt tap vegna þessa. Ef miðað er við gengi Seðlabankans myndu fást um 6,4 milljarðar króna í dag fyrir 50 milljónir dala.

Helgi Magnús Gunnarsson, saksóknari efnahagsbrota hjá ríkislögreglustjóra.
Helgi Magnús Gunnarsson, saksóknari efnahagsbrota hjá ríkislögreglustjóra. mbl.is / Eyþór
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka