Alistair Darling, fjármálaráðherra, hefur viðurkennt að breska ríkisstjórnin hefði getað komið í veg fyrir að Fred Goodwin, forstjóri Royal Bank of Scotland (RBS) fengi himinháa starfslokagreiðslu. Þeim hafi ekki verið ljóst hvers eðlis skuldbindingar Goodwins væru við RBS þegar þeir pumpuðu 20 milljörðum punda af skattfé almennings í fyrirtækið í desember sl.
Breska ríkisstjórnin hélt að starfslokasamningur Goodwins væri „óhjákvæmileg lagaleg skuldbinding“ að sögn Darlings.
Þetta mál á eftir að verða mjög óþægilegt fyrir Darling og bresku ríkisstjórnina ef marka má umfjöllun breskra fjölmiðla því Goodwin á eftir að fá 650.000 pund á ári, sem eru rúmlega 104 milljónir íslenskra króna, það sem hann á eftir ólifað. Goodwin er fimmtugur að aldri.
George Osborne, fjármálaráðherra í skuggaráðuneyti breska þingsins, þ.e fjármálaráðherra stjórnarandstöðunnar, segir að afsakanir Darlings um að hann hafi ekki vitað hvað væri að gerast „brjóstumkennanlegar.“ Hann sagði í samtali við BBC fréttastofuna að að umræddar starfslokagreiðslur hefðu verið veittar á vakt núverandi ríkisstjórnar og að játning Darlings sýni að stjórnin hafi ekki haft neina stjórn á atburðarrásinni.
Osborne sagði í fulltrúadeild breska þingsins í morgun að starfslokagreiðslur til Goodwin væru algjörlega óábyrg meðferð á skattfé almennings og krafðist þess að fá upplýsingar um hvort Goodwin hefði seinkað brottför sinni úr bankanum til að semja um greiðslurnar.
RBS tapaði 24,14 milljörðum punda á síðasta ári, jafnvirði 3930 milljörðum íslenskra króna. Er þetta mesta tap bresks fyrirtækis í sögunni.