Jafnréttislögin kveða á um að gæta skuli að hlutfalli kynjanna við skipun í nefndir, ráð og stjórnir á vegum ríkisins og stjórn fyrirtækja í eigu þess. Fimm konur skipa núna stjórn Nýja Kaupþings. Hæstaréttarlögmaður telur þetta hugsanlegt brot á jafnréttislögum.
Hulda Dóra Styrmisdóttir skrifstofustjóri á velferðarsviði Reykjavíkurborgar, hefur tekið við sem stjórnarformaður Nýja Kaupþings. Kaupþing er fyrsti bankinn hér á landi sem hefur einungis konur í stjórn, samkvæmt vefsíðu Nýja Kaupþings. Þær sem skipa stjórn bankans auk Huldu Dóru eru, Auður Finnbogadóttir, Erna Bjarnadóttir, Helga Jónsdóttir og Drífa Sigfúsdóttir.
Í 15. gr. laga um jafnan rétt og jafna stöðu karla og kvenna, sem í daglegu tali nefnast jafnréttislög, kemur fram að við skipun í nefndir, ráð og stjórnir á vegum ríkis og sveitarfélaga skuli þess gætt að hlutfall kynjanna sé sem jafnast og ekki minna en 40% þegar um fleiri en þrjá fulltrúa er að ræða. Þetta gildir einnig um stjórnir opinberra hlutafélaga og fyrirtækja sem ríki eða sveitarfélag er aðaleigandi að.
„Ef jafnréttislögin miðað að því að tryggja jafnan rétt karla og kvenna þá hlýtur það að vera sama brot á jafnréttislögum að hafa fimm karla og hafa fimm konur í stjórn bankans,“ segir Sigurður G. Guðjónsson, hæstaréttarlögmaður. „Það er nú bara þannig að jafnréttislögin virðast bara virka í aðra áttina,“ bætir Sigurður við.
Nýja Kaupþing er ekki opinbert hlutafélag. Hins vegar er það fyrirtæki sem er 100% í eigu ríkisins.