Talsvert uppnám hefur orðið á Írlandi og Bretlandseyjum eftir að Michael O'Leary, forstjóri írska lágjaldaflugfélagsins Ryanair sagði við breska ríkisútvarpið BBC í dag, að félagið væri að íhuga að setja lása á hurðar á salernum í flugvélum. Greiða þurfi 1 pund í sjálfsala til að opna dyrnar.
Bresku neytendasamtökin Which? sögðu m.a. ljóst, að félagið hugsaði fyrst um hagnaðinn og síðan um farþegana. Ef farþegar yrðu rukkaðir fyrir að fara á klósettið myndi það hugsanlega leiða til þess, að þeir keyptu minna af drykkjum um borð í vélunum á uppsprengdu verði - og þá kæmi vel á vondan.
Steven McNamara, upplýsingafulltrúi Ryanair, reyndi síðar að slá á öldurnar og sagði að þessari hugmynd yrði ekki hrint í framkvæmd í næstu framtíð.
„Verður af þessu á endanum? Ég veit það ekki. Þetta er eitt af því kemst í umræðuna vegna þess að Michael er að velta því fyrir sér."
Í síðustu viku staðfesti Ryanair að félagið áformaði að leggja niður innritunarborð á flugvöllum fyrir lok þessa árs til að reyna að drga úr rekstrarkostnaði.
Ryanair áformar að bjóða flugmiða fyrir lágt grunnverð en innheimta sérstaklega fyrir ýmsa hluti, svo sem innritun á flugvöllum eða fyrir fleiri en eina tösku.