Breska fyrirtækið Mosaic Fashion, sem rekur nokkrar fataverslunarkeðjur, er á leið í greiðslustöðvun að sögn breska blaðsins The Times. Baugur Group á 49% hlut í fyrirtækinu og gamla Kaupþing um 20% hlut.
Blaðið segir, að búist sé við að Kaupþing breyti nærri 400 milljóna punda skuld fyrirtækisins í hlutafé og eignist um 90% hlut í félaginu eftir endurskipulagningu. Hún muni fela í sér að eignir verði seldar en eftir verði haldið fjórum kjarnafyrirtækjum: Oasis, Warehouse, Coast og Karen Millen.
Gert er ráð fyrir að fulltrúar endurskoðunarfyrirtækisins Deloitte, sem hefur veitt lánardrottnum Mosaic ráðgjöf, verði skipaðir tilsjónarmenn í greiðslustöðvun. Mosaic hefur reynt að selja verslunarkeðjurnar Shoe Studio og Principles. Peter Davies, fyrrum forstjóri Principles, sagðist í gærkvöldi hafa lagt fram formlegt tilboð í þá keðju. Verslunarkeðjan Debenhams og Arcadia Group, sem er í eigu Philip Green, eru einnig talin hafa áhuga á keðjunni.
Blaðið segir, að skilanefnd Kaupþings vilji helst reyna að tryggja að Mosaic liðist ekki í sundur en þannig verði framtíðarverðmæti félagsins best tryggt. Gert er ráð fyrir að stjórnendur Mosaic, undir forustu Derek Lovelock, forstjóra, eignist lítinn hlut í félaginu. Lovelock hefur lagt mikla áherslu á að Mosaic verði ekki hlutað í sundur að öðru leyti en að selja Principles og Shoe Studio.
Times segir, að greiðslustöðvun Mosaic sé óvenjuleg að því leyti, að helsti lánardrottinn félagsins, Kaupþing, muni einnig fá stærstan hluta hlutafjárins. Í raun sé um að ræða einskonar skipti á skuldum og hlutafé.
Kaupþing og Mosaic tóku í janúar upp beinar viðræður um endurskipulagningu félagsins. Baugur var ekki þátttakandi í þeim viðræðum.