Þrír starfsmenn áhættustýringar Nýja Kaupþings sögðu störfum sínum lausum í morgun. Birgir Örn Arnarson, Óskar Haraldsson og Hrafnkell Kárason eru allir með doktorspróf í verkfræði og störfuðu í áhættustýringu bankans.
Í tölvupósti sem þeir sendu öllum starfsmönnum Nýja Kaupþings segir að þeir hafi skoðað hug sinn vandlega og velt fyrir sér atvinnu til framtíðar en nú stefnir hugur þeirra að nýjum áskorunum.
Að sögn Birgis hefur þetta verið að gerjast með þeim í nokkurn tíma að láta af störfum en það var fyrst í morgun sem þeir tilkynntu Finni Sveinbjörnssyni, bankastjóra, um fyrirætlanir sínar. Birgir segir að nokkrir aðilar hafi sett sig í samband við þá með atvinnu í huga.
Þremenningarnir ætla að vera stjórnendum bankans innan handar á næstu vikum.