Breska tískuvörukeðjan Mosaic Fashions, sem Baugur á 49% hlut í og Kaupþing 20%, mun jafnvel óska eftir greiðslustöðvun í dag. Þetta kemur fram í breska dagblaðinu Guardian í dag. Á laugardag greindi Times frá fyrirhugaðri greiðslustöðvun keðjunnar en í gær var þingað um framhaldið milli Kaupþings og Mosaic. Líklegast þykir að Deloitte verði bússtjóri Mosaic á greiðslustöðvunartímabilinu.
Kemur fram í Guardian að Kaupþing muni væntanlega yfirtaka skuldir Mosaic í stað hlutafjár og eignast þannig 90% hlut í keðjunni, sem meðal annars á og rekur Karen Millen og Oasis. Talið er að lykilstjórnendur, þar á meðal forstjórinn, Derek Lovelock, muni eiga 5-10% hlut í Mosaic.
Þykir líklegast að keðjunni verði skipt upp og að verslanir eins og Karen Millen, Oasis, Coast og Warehouse verði áfram inni í keðjunni en að Shoe Studio og Principles verði selt.