Íslenskar eignir Moderna Finance, félögin Sjóvá, Askar Capital og Avant, verða fluttar á ný undir móðurfélagið Milestone á Íslandi. Moderna seldi í morgun tryggingafélagið Moderna Forsäkringar og sjóðstýringarfyrirtækið Aktie-Ansvar. Þá stefnir félagið að því að selja líftryggingafélagið Moderna Liv og bankann Banque Invik.
Fram kemur í tilkynningu að salan á eignum Moderna Finance sé gerð í samráði við skilanefnd Glitnis sem er stærsti lánardrottinn Milestone. Með sölunni sé horfið frá áformum um fjárhagslega endurskipulagningu sænsku Moderna samstæðunnar, sem eigendur félagsins og skilanefnd Glitnis hafi unnið að undanfarnar vikur. Endurskipulagningin gerði m.a. ráð fyrir að Glitnir leggði félögunum til nýtt fé til endurfjármögnunar lána.
„Stöðugt versnandi aðstæður á mörkuðum og verulegt vantraust sænskra aðila gagnvart íslensku eignarhaldi varð hins vegar til þess að áætlanir náðu ekki fram að ganga og því mun Glitnir ekki leggja sænsku félögunum til nýtt fé," segir í tilkynningunni.
„Skilanefnd Glitnis og stjórnendur Milestone hafa unnið ötullega saman að því á undanförnum mánuðum að tryggja hagsmuni kröfuhafa sem best. Í ljósi þessa eru það ákveðin vonbrigði að þær áætlanir, sem mikil vinna hefur verið lögð í, nái ekki fram að ganga," segir síðan.