Kenneth Rogoff, prófessor í hagfræði við Harvard-háskólann í Bandaríkjunum, sagði í Viðtalinu í Sjónvarpinu í gær að Íslendingar geti þakkað sínum sæla fyrir að hafa ekki verið með evru sem gjaldmiðil þegar bankarnir féllu.
Rogoff kom hingað til lands til að flytja fyrirlestur um efnahagsástand heimsins á fundi forsætisráðherra Norðurlandanna í Bláa lóninu fyrir helgi. Í viðtalinu við Boga Ágústsson, fréttamann, sagði hann að það hefði verið stórslys ef Íslendingar hefðu haft evruna við hrunið því þá hefði ekki verið möguleiki á að gengið lækkaði. Þða hefði haft í för með sér þjóðargjaldþrot.
Hann sagði að málið hefði ef til vill horft öðru vísi við ef Ísland hefði haft evruna sem gjaldmiðil í nokkur ár því þá hefðu bankarnir líklega ekki vaxið jafnt hömlulaust og raun bar vitni.
Þá sagði Rogoff, að það myndi jafngilda efnahagslegu sjálfsmorði að taka upp evru í miðri kreppu. Mörg lönd á evrusvæðinu séu í miklum þrengingum og hugsanlegt sé að eitthvert þessara landa hætti með evruna sem gjaldmiðil.