Lögmenn Glitnis og Íslandsbanka mótmæltu því í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag að Baugur fengi áframhaldandi heimild til greiðslustöðvunar. Fari dómari eftir vilja Glitnis fer Baugur í gjaldþrotameðferð. Niðurstaða á að liggja fyrir næsta mánudag
Arngrímur Ísberg, héraðsdómari, tók ekki afstöðu til áframhaldandi greiðslustöðvunar Baugs Group í þinghaldi í dag og var þinghaldi frestað þangað til á mánudaginn.
Ragnar H. Hall, aðstoðarmaður í greiðslustöðvun Baugs Group, hefur óskað eftir því að greiðslustöðvun verði framlengd í allt að þrjá mánuði. Hann áréttaði beiðnina í dag og krafðist þess að mótmælum lögmanna Glitnis og Íslandsbanka yrði hrundið.
Lögmaður Glitnis vildi ekki tjá sig um ástæður þess að bankinn mótmælti beiðni Baugs.
Stefán Hilmarsson, aðstoðarforstjóri Baugs, sagði eftir þinghaldið undrast þessa afstöðu Glitnis. Aðrir kröfuhafar hefðu ekki sett sig upp á móti greiðslustöðvun. Þeir áttuðu sig á því að betra væri að fá tíma til að vinna úr stöðu Baugs til að bjarga verðmætum. Staða félagsins væri enn óskýr því greiða þyrfti úr ýmsum málum eins og uppgjöri við Landsbankannvegna BG Holding.