Verð á fasteignum hefur hrunið í Evrópu undanfarin misseri og er Ísland þar ekki undanskilið. Í nýrri samantekt Forbes tímaritsins kemur fram að fasteignaverð hefur lækkað mest í Eistlandi eða um 23%. Ísland er í tíunda sæti listans með 2,7% lækkun á fasteignaverði á síðasta ári.
Í öðru sæti listans er Bretland en á síðasta ári lækkaði fasteignaverð þar um 16,2%. Í Frakklandi lækkaði fasteignaverð um 9,9% en 9,1% á Írlandi. Athygli vekur að öll Norðurlöndin eru á lista yfir þau tíu ríki þar sem fasteignaverð hefur lækkað mest í Evrópu fyrir utan Svíþjóð. Noregur er í fimmta sæti listans en þar nemur lækkunin á síðasta ári 7,5%, Danmörk er í sjöunda sæti með 4,9% verðlækkun og Finnland í áttunda sæti með 3,3% verðlækkun.
Á vef Forbes kemur fram að Ísland eigi við verulega erfiðleika að stríða eftir fall bankanna síðastliðið haust. Hins vegar vinni mikil verðbólga að öllum líkindum á móti verðlækkunum á fasteignum. Hins vegar megi gera ráð fyrir því að verð fasteigna haldi áfram að lækka á Íslandi allt þetta ár. Er þetta í takt við spá Seðlabanka Íslands.