Margt væri gert öðruvísi í málefnum bankanna ef að hægt væri að hverfa aftur um nokkur ár. Bankarnir væru ekki einkavæddir með þeim hætti sem að gert var og viðvaranir um viðskiptahalla og aukna verðbólgu væru litnar alvarlegri augum. Þetta segir Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra í viðtali við viðskiptablaðið Finance Asia.
„Ég hefði gert margt öðruvísi. Til dæmis hefði ég ekki einkavætt bankana með þeim hætti sem að gert var. Tveir stórir bankar í eigu ríkisins voru einkavæddir á sama tíma og stærstur hluti hlutabréfa þeirra lentu í höndum eins eiganda, í stað dreifðar eignaraðildar. Bönkunum var leyft að stækka úr öllu samhengi við íslenskan efnahag þannig að ástandið varð mjög fljótt áhyggjuefni án þess að nokkur gerði neitt í málunum,“ segir Steingrímur.
Varfærnari nálgun hefði hentað betur, segir Steingrímur í viðtalinu. „Margar slæmar ákvarðanir voru teknar hvað efnahagsstjórnina varðar. Við misstum stjórn á verðbólgunni, viðskiptahallinn varð mjög mikill og öll þessi viðvörunarmerki dugðu ekki til að vekja síðustu ríkisstjórn.“
Alltaf ætti að taka slíkum aðvörunum alvarlega, en það hafi einfaldlega ekki verið gert. Stjórnvöld og lykilstofnanir fjármálkerfisins hafi ekki sinnt hlutverki sínu eins og þeim ber og slíkt endi alltaf illa.
Í viðtalinu ræðir Steingrímur enn fremur um hvernig hann telji að bæta megi efnahag þjóðarinnar og segir m.a. mikilvægt að ná þeim stöðugleika að hægt sé að lækka vexti. Þá sé óraunhæft að ætla að íslensku bankarnir verði virkir á alþjóðavettvangi á næstu árum.
Viðtal Finance Asia