Húsgögn úr skrifstofu Baugs í Lundúnum seld

Stóll eftir Arne Jacobsen.
Stóll eftir Arne Jacobsen.

Breska blaðið Daily Telegraph segir, að Jón Ásgeir Jóhannesson sé að reyna að selja húsgögnin úr skrifstofum Baugs í Lundúnum. Talið er að húsgögnin séu þúsunda punda virði en meðal þeirra eru stólar teiknaðir af danska arkitektinum Arne Jacobsen, skrifborð hönnuð af Terence Conran, svartlökkuð kommóða og fleiri húsgögn.

Núverandi og fyrrverandi starfsmönnum Baugs býðst að kaupa húsgögnin, að sögn Telegraph, en þau eru samtals metin á rúmlega 15 þúsund pund, jafnvirði 2,4 milljóna króna.

Telegraph segir, að Jón Ásgeir og Ingibjörg Pálmadóttir, eiginkona hans, hafi keypt húsgögnin af tilsjónarmönnum fyrirtækisins en bæði Baugur á Íslandi og BG Holding, sem fer með eignir Baugs í Bretlandi, eru í greiðslustöðvun. Ekki er ljóst hvað þau greiddu fyrir húsgögnin en Telegraph hefur eftir Gunnari Sigurðssyni, forstjóra Baugs, að enginn hafi hagnast á þessum viðskiptum. 

Daily Telegraph segist hafa séð tölvupóst sem Hörður Logi Hafsteinsson, starfsmaður Baugs, hafi sent til núverandi og fyrrverandi starfsmanna Baugs í Bretlandi. Þar segir: „Ingibjörg og Jón hafa ákveðið að þau vilji selja nokkra stóla og borð sem þau keyptu á skrifstofunni."

Um er að ræða 21 borð sem á að kosta 300 pund hvert, 22 stóla á 200 pund hvern og fjóra hægindastóla á 300 pund hvern. Þá er einnig á listanum móttökuborð og þrjú svört borð með speglum og rafmagnsinnstungum á 300 pund hvert.

Blaðið hefur eftir fyrrverandi starfsmanni Baugs, að hann sé æfur vegna hrokans sem felist í tölvupóstinum. „Ég lít á þetta sem óvelkominn ruslpóst," segir hann.

Hann bætir við, að notagildi þessara húsgagna sé ekkert enda hafi þau verið aðallega keypt til skrauts. „Þau voru flott þegar þau voru ný en eru hálf drusluleg nú."

Blaðið lýkur frétt sinni á því að segja, að ekki sé vitað um afdrif rúmlega 2 metra hárrar styttu af Leifi heppna, sem tók á móti gestum á skrifstofu Baugs við New Bond Street.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK