Þorlákur Runólfsson, forstöðumaður einkabankaþjónustu hjá Nýja Kaupþingi, sagði starfi sínu lausu í gær. Fimm lykilstarfsmenn sögðu störfum sínum lausum á mánudaginn. Þorlákur gegndi lykilhlutverki í uppbyggingu á einkabankaþjónustu Kaupþings á sínum tíma.
Uppsagnir tengjast ekki innbyrðis en starfsmenn áhættustýringar tóku ákvörðun um starfslok í sameiningu.
Nítján framkvæmdastjórar hafa látið af störfum hjá bankanum frá bankahruninu. Aðspurður segir Finnur Sveinbjörnsson að ekki sé hægt að tala um fjöldaflótta hjá bankanum þegar sex af rúmlega níu hundruð starfsmönnum segja starfi sínu lausu, en segist sjá eftir starfsmönnum. „Þetta eru öflugir menn, engin spurning,“ segir hann. Hann segist skilja uppsagnir að ákveðnu leyti, sérstaklega varðandi markaðsviðskipti þar sem mikil ládeyða virðist einkenna hlutabréfa- og afleiðuviðskipti. Við breytingu úr alþjóðlegum banka í hreinræktaðan íslenskan banka hafi áhættustýringin jafnframt gjörbreyst.