Tíminn til að marka framtíðarstefnu í peningamálum þjóðarinnar er núna, að sögn Ólafs Ísleifssonar, hagfræðings. Í ræðu hans á Iðnþingi Samtaka iðnaðarins sagði hann krónuna eina og sér ekki nógu sterka.
Til að Íslendingar geti haslað sér völl í alþjóðlegu umhverfi þarf traustan gjaldmiðil. Evran blasir við sem framtíðargjaldmiðill, hvort sem upptaka hennar er tengd inngöngu í Evrópusambandið eða ekki. Evran leysir ekki þann efnahagsvanda sem Ísland á við að etja nú, en hún myndi breyta aðstæðum og auðvelda flæði fjármagns milli Íslands og annarra landa.
Lækka þarf stýrivexti hið fyrsta og afnema gjaldeyrishöft eins fljótt og unnt er. Þá þarf að ganga frá samningum við kröfuhafa bankanna á þann hátt að Ísland öðlist á ný trúverðugleika á alþjóðlegum fjármálamörkuðum. Ganga þarf frá endurfjármögnun nýju bankanna þannig að þeir geti sinnt hlutverki sínu við íslenskt atvinnulíf.