Nafnverð íbúðarhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu hefur lækkað um tæplega 4% frá hruni bankanna og um tæplega 6% á síðastliðnum tólf mánuðum. Þetta er viðlíka þróun og verið hefur á landinu öllu að meðaltali.
Í Morgunkorni Greiningar Íslandsbanka kemur fram að lækkunin sé lítil m.v. að hagkerfið er að ganga í gegnum eina erfiðustu kreppu sem það hefur tekist á við.
„Atvinnuleysi er nú meira hér en
áður hefur mælst og það á tímabili þar sem heimilin er skuldsettari en
nokkru sinni fyrr. Heimilin þurfa að standa skil á háum greiðslum vegna
afborgana og vaxta á sama tíma og ráðstöfunartekjur margra þeirra eru
að dragast saman. Atvinnuleysið hefur aukist hratt hjá ungu fólki en
þar eru skuldirnar líka hvað mestar. Eftir verðbóluna sem var á
húsnæðismarkaði standa eftir margar óseldar íbúðir á sama tíma og
þúsundir, aðallega erlendir verkamenn, hafa flutt af landi brott sökum
efnahagsástandsins.
Ástæða þess að nafnverð hefur ekki lækkað meira en raun ber vitni liggur meðal annars í því hversu óvirkur íbúðamarkaðurinn er um þessar mundir," samkvæmt Morgunkorni.
Fjármálastofnanir hafa ekki gengið fram með sama hætti og víða erlendis gangvart heimilunum í innheimtu húsnæðislána. Þvingaðar sölur hafa verið fátíðari hér en t.d. í Bandaríkjunum undanfarið en þar hafa slíkar sölur verið ein af ástæðum þess hvað verð íbúðarhúsnæðis hefur lækkað skarpt. Er þetta ein af ástæðum þess af hverju veltan er ekki meiri en raun ber vitni á húsnæðismarkaðinum þrátt fyrir slæmt og ört versnandi efnahagsástand.
Makaskipti halda uppi fölsku verði
„Það er ekki einvörðungu þunnur markaður sem nú gerir verðmælingar á húsnæði erfiðar. Makaskipti hafa færst verulega í aukanna en það er þegar fasteignir eru notaðar í skiptum fyrir hið keypta. Í slíkum viðskiptum er hinu eldra skipt upp í á yfirverði en þannig fæst hærra lán á hina keyptu eign. Makaskipti voru um 32% allra kaupsamninga í febrúar en 5% í sama mánuði í fyrra. Af þessu má draga þá ályktun að verð íbúðarhúsnæðis hafi lækkað meira en hinar opinberu tölur bera með sér.
Meiri verðlækkun í pípunum
Eftir verðbólu þá sem verið hefur á íbúðamarkaði undanfarin ár er raunverð íbúðarhúsnæðis en umtalsvert hærra en langtímameðaltal eða um 40% fyrir því sem verið hefur hér undanfarna áratugi. Ljóst er að svo hátt íbúðaverð er ekki í takti við þá stöðu sem hagkerfið er komið í. Frekari verðlækkun íbúðarhúsnæðis er því í farvatninu," samkvæmt Morgunkorni Íslandsbanka.