Vonir standa til að á allra næstu dögum takist samningar um uppgjör á skuldum og eignum Kaupþings og dótturfélagsins í Lúxemborg. Takist ekki að ganga frá samningum við lánardrottna dótturfélagsins og þessum samningi við skilanefnd Kaupþings innan tveggja vikna stefnir í gjaldþrot þess. Þetta er mat fjármálaeftirlits Lúxemborgar (CSSF).
Bankinn hefur verið í hálfs árs greiðslustöðvun sem rennur út fyrstu vikuna í apríl.
Tvennt þarf til áður en hægt er að selja bankann, samkvæmt fjármálaeftirlitinu. Annars vegar þarf skilanefnd Kaupþings að skrifa undir samninginn um uppgjörið en starfsmaður eftirlitsins segir að undirskrift hans hafi ítrekað frestast. Segir hann að til dæmis hafi átt að skrifa undir á föstudag en undirskrift var frestað til þriðjudags. Fyrir hádegi í gær hafði hún heldur ekki borist, en heimildir Morgunblaðsins herma að vinna við málið sé á lokastigi og pennar skilanefndarinnar fari væntanlega brátt á loft. Hins vegar á svo í kjölfarið eftir að bera endurskipulagða áætlun um rekstur bankans undir lánardrottna, sem meira en helmingur þeirra þarf að samþykkja svo salan geti gengið í gegn. „Við erum að renna út á tíma, sérstaklega þar sem undirskrift samkomulagsins við Kaupþing hefur frestast í fjölmörg skipti.“
Steinar Þór Guðgeirsson, formaður skilanefndar Kaupþings, kannast ekki við að sala dótturfélagsins strandi á skilanefndinni. Honum hafi skilist sem nú væri rætt við lánardrottna bankans.
„Þetta stjórnast af lánardrottnunum. Samþykki þeir ekki að lækka skuldir sínar og lengja í þeim og svo framvegis, þá fer bankinn í gjaldþrot. Hann er þannig staddur.“
Enn hafi því ekki reynt á hvort bankinn verði seldur og því ekki komið að samþykki skilanefndarinnar að hans mati. Aðrir möguleikar séu í stöðunni eins og að skipta honum upp eins og gert var hér heima.
„Fyrst og fremst þarf að liggja fyrir að kröfuhafarnir fallist á þessa leið. Ég get ekki séð að það gerist á undan því að ákvörðun verði tekin hérna um hvort bankinn verði seldur,“ segir hann.