Seðlabanki Evrópu og seðlabankar ríkja á evrusvæðinu töpuðu 10,3 milljörðum evra, jafnvirði 1165 milljörðum króna vegna fimm banka sem féllu á síðasta ári. Þetta voru íslensku bankarnir þrír, Lehman Brothers í Bandaríkjunum og hollensku bankinn Indover NL.
Þetta kom fram á blaðamannafundi Jean-Claude Trichet, seðlabankastjóra Evrópu, í gær þegar hann gerði grein fyrir stýrivaxtalækkun bankans.
Bankarnir fimm fengu fé að láni hjá seðlabankanum í hefðbundnum endurhverfum viðskiptum en hafa ekki getað greitt lánin til baka. Bankarnir lögðu fram veð fyrir lánunum, aðallega eignatryggð skuldabréf, sem hafa takmarkað verðgildi í núverandi markaðsumhverfi.
Ekki er búið að afskrifa féð en fari svo að þess þurfi hefur seðlabankinn ákveðið að upphæðin deilist á alla evrusvæðisbankana eftir stærð.