Kaupþing lánaði stærstu eigendum sínum og tengdum aðilum hundruð milljarða króna, samkvæmt lánabók Kaupþings, en Morgunblaðið hefur hluta hennar undir höndum.
Um er að ræða stöðu útlána í lok júní 2008, þremur mánuðum fyrir hrun bankans. Stór hluti lánanna var veittur til eignarhaldsfélaga sem skráð eru í Hollandi og á Tortola-eyju, sem er ein af Bresku Jómfrúreyjunum.
Lánveitingar til Roberts Tchenguiz voru mun hærri en áður hefur komið fram. Af þrettán félögum Tchenguiz sem fengu lán eru sjö skráð á Tortola-eyju. Eitt þeirra er Oscatello Investments Ltd. Skilanefnd Kaupþings hefur sem kunnugt er höfðað mál gegn Oscatello Investments Ltd. vegna veðtryggðrar lánalínu eða „yfirdráttar í erlendum gjaldeyri á viðskiptareikningi“ eins og það er orðað í stefnu, upp á 107 milljarða króna.
Einnig er um að ræða lánveitingar beint til eigendanna eða venslafólks þeirra. Sem dæmi má nefna lán á fjórða milljarð króna til Ágústs Guðmundssonar í Bakkavör og eiginkonu hans og smærri lánveitingar, sem hlaupa á hundruðum milljóna króna, til íslenskra eignarhaldsfélaga.
Nánar verður fjallað um málið í Morgunblaðinu á morgun.