Eftir Andra Karl
Páll Hreinsson, formaður rannsóknarnefndar Alþingis, segir að verið sé að samkeyra eignarhald og stærstu lánþega bankanna. Nefndinni er meðal annars falið með lögum að kanna krosseignatengsl hjá bönkunum og lán þeirra til eigenda og skyldra aðila.
Líkt og Morgunblaðið greindi frá þá lánaði Kaupþing stærstu eigendum sínum og tengdum aðilum samtals 478 milljarða króna. Í samtali við Morgunblaðið segir Páll að eftir að búið er að samkeyra upplýsingar um eigendur og lánveitingar bankanna verði lagst rækilega yfir þær. Einnig verði skoðað hvernig staða útlána til eigenda hefur þróast eftir tímabilum.
Vilhjálmur Bjarnason, aðjunkt við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands og framkvæmdastjóri Samtaka fjárfesta, segir að með lánveitingunum eru menn ekki lengur á jaðrinum heldur komnir yfir hann. „Því þarna eru þeir í raun að lána þessum helstu eigendum til að styrkja eignarhaldið á bankanum. Það var ekkert eigið fé í bankanum."
Nánar er fjallað um þetta í sunnudagsblaði Morgunblaðsins.