Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, segir tölur í frétt Morgunblaðsins um lán bankans til eigenda og tengdra aðila rangar og fréttina villandi. Hann gengur út frá því að Fjármálaráðuneytið rannsaki birtingu blaðsins á trúnaðarupplýsingum, enda séu þær klárt brot á lögum um fjármálafyrirtæki. Yfirlýsing frá Sigurði er birt á vefnum pressan.is en Sigurður hefur ekki sent slíka tilkynningu til mbl.is
„Vegna mjög mísvísandi umfjöllunar Morgunblaðsins og fréttastofu Stöðvar 2 um lánveitingar til „eigenda" Kaupþings banka er rétt að taka eftirfarandi fram: Þær fjárhæðir sem slegið er upp í frétt Morgunblaðsins eru rangar. Umræddar upplýsingar eru greinilega unnar upp úr skýrslu um stórar áhættuskuldbindingar sem Kaupþing sendi ársfjórðungslega til Fjármálaeftirlitsins.
Í umfjöllun Morgunblaðsins er ekki gerð grein fyrir veðtryggingum fyrir umræddum lánum og frádrætti vegna þessa sem kveðið er á um í reglum um stórar áhættuskuldbindingar. Meðal frádráttar má nefna handveð í peningainnstæðum og verðbréfum og skuldbindingar utan efnahagsreiknings. Þess vegna eru þær upphæðir sem tilgreindar eru í fréttinni marklausar enda voru áhættuskuldbindingar bankans til umræddra aðila mun lægri en Morgunblaðið nefnir.
Það er einnig rangt sem fram kemur í fréttinni að umræddar lánveitingar hafi farið til eigenda bankans. Þar ruglar blaðamaður saman skilgreiningunum „eigandi” og „stórar áhættuskuldbindingar.”
Einn þeirra sem Morgunblaðið tiltók í fréttinni að væri í hópi eigenda Kaupþings er Robert Tchenguiz. Það er rangt, hann var ekki einn af eigendum bankans. Fyrirsögn blaðsins „500 milljarðar til eigenda" er því staðleysa.
Nýverið ritaði Robert Tchenguiz grein í Morgunblaðið og benti á að lánveitingar til hans voru mun lægri en fullyrt hafði verið í íslenskum fjölmiðlum. Það stafaði af því að verulegur hluti skuldbindinga hans við bankann væri vegna endurhverfra verðbréfaviðskipta og framvirkra samninga sem fjármagnaðar voru af öðrum bönkum, en Kaupþing hafði milligöngu um viðskiptin.
Þrátt fyrir þessar útskýringar Roberts Tchenguiz heldur Morgunblaðið áfram að fara með rangt mál um umfang lántöku hans hjá Kaupþingi. Það er í einu orði sagt hryggilegt að efni úr skýrslu bankans til Fjármálaeftirlitsins skuli leka til fjölmiðla nú, rúmum sex mánuðum eftir að hún barst þangað, og að efni hennar skuli afbakað með jafn afgerandi hætti og um ræðir.
Af umfjöllun síðustu vikna fæ ég ekki betur séð en að fjölmiðlum séu sendar kerfisbundið misvísandi upplýsingar um starfsemi Kaupþings. Ég og aðrir fyrrum stjórnarmenn bankans höfðum fullan skilning á mikilvægi þess að Fjármálaeftirlitið fengi upplýsingar um stórar áhættuskuldbindingar bankans, enda var þeim komið á framfæri við Fjármálaeftirlitið með reglubundnum hætti eins og lög gera ráð fyrir í trausti þess að um þær ríkti fullkominn trúnaður eins og lög áskilja.
Ég geng út frá því að birting Morgunblaðsins á trúnaðarupplýsingum (þótt afbakaðar séu) frá bankanum til Fjármálaeftirlitsins verði tilefni sérstakrar rannsóknar af hálfu Fjármálaeftirlitsins enda augljóslega um að ræða skýrt brot á lögum um fjármálafyrirtæki. Án verndar fyrir svona meðferð trúnaðarrupplýsinga mun engin bankastarfsemi þrífast í landinu. Það er einnig sorglegt að sjá fjölmiðlamenn láta misnota sig ítrekað. Þeir ættu að spyrja sig hvað þeir aðilar hafi að fela sem liggur svo á að láta dómstól götunnar kveða upp úrskurð áður en rannsókn bankahrunsins lýkur. Sigurður Einarsson"