Líklegt er að um 150 manns missi vinnuna í Bretlandi vegna yfirtöku íslenska ríkisins á Straumi-Burðarás, samkvæmt því sem fram kemur á fréttavef Daily Telegraph. Þá er líklegt að 80 missi vinnuna hjá fyrirtækinu Teathers og um tíu missi vinnuna hjá Stamford Partners.
Fram kemur í Telegraph að forsvarsmenn Straums hafi lagt hugmyndir að nokkrum leiðum til bjargar bankanum fyrir íslensk yfirvöld um helgina en að þeim hafi verið hafnað og „dramatískasta leiðin valin”
Þá er greint frá því að fyrirtækið hafi verið stofnað að fyrsta íslenska milljarðamæringnum, Björgólfi Thor Björgólfssyni, syni eiganda West Ham FC og að þeir feðgar hafi tengst hruni Landsbankans.
Þá segir að Landsbankinn hafi í síðustu viku fengið 200 milljónir evra frá Straumi um fjármagns og lánalínur og með skuldabréfum og ábyrgðarlánum. Einnig segir að yfirtaka bankans bindi enda á vangaveltur um flutning hans frá Íslandi til Bretlands.
Staumur keypti Teathers af Landsbankanum í september. Þeim kaupum var síðan rift eftir að Fjármálaeftirlitið greip inn í rekstur Landsbankans. Gengið var frá hluta samningsins að nýju í lok október og var þá samið við umsjónaraðila breska verðbréfa- og ráðgjafarfyrirtækisins Teathers Limited.