Thomas Haugaard, hagfræðingur hjá Svenska Handelsbanken í Kaupmannahöfn, segir að með falli Straums Burðaráss séu auknar líkur á þjóðargjaldþroti. „Hættan á raunverulegu þjóðargjaldþroti hefur aukist," segir Haugaard í samtali við Bloomberg. „Ríkisstjórnin hefur nú tekið á sig ábyrgð á meiri skuldum og spurningin er hvort íslenska ríkið sé nægjanlega öflugt til þess að bera þær byrðir," bætir Haugaard við.
Í morgun var tilkynnt um að Fjármálaeftirlitið hefði tekið yfir rekstur Straums og eru því allir fjórir helstu bankar Íslands komnir í hendur ríkisins.
Snemma í desember var greint frá því að Straumur hefði lokið fjármögnun upp á 133 milljónir evra. Fjármögnunin bæti lausafjárstöðu bankans og átti að nýta til að endurgreiða sambankalán að upphæð 200 milljónir evra sem gjaldféll 9. desember. Gjalddagi þessarar nýju fjármögnunar er 15. maí 2009.
Talsmaður Straums Georg Anderson segir að Seðlabanki Íslands hafi neitað Straumi um að aðstoð en Straumur átti að greiða 33 milljónir evra í dag en hefði aðeins handbært fé að fjárhæð 15,3 milljónir evra. Segir Georg að ástæðan sem Seðlabankinn hafi gefið sé sú að starfsemi Straums á Íslandi sé það lítil.
Straumur er með starfsemi í Danmörku, Svíþjóð, Finnlandi, Bretlandi, Póllandi og Tékklandi auk Íslands. Straumur hugðist færa höfuðstöðvar bankans til Lundúna eða Stokkhólms.
Samkvæmt frétt Bloomberg á Straumur hlut í Actavis Group, pólsku fjarskiptafyrirtækjunum P4 og Neta og ungverska fjarskiptafyrirtækinu Hungarian Telephone & Cable.