Fjármálaráðherrar ríkjanna sextán á svonefndu evrusvæði höfnuðu í kvöld óskum Bandaríkjastjórnar um frekari aðgerðir til að örva efnahagslífið í Evrópuríkjum. Joaquin Almunia, sem fer með efnahagsmál í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, sagði eftir fund ráðherranna, að nú væri áætlað að efnahagsbata væri að vænta árið 2010 en ekki undir lok þessa árs, eins og áður var spáð.
Lawrence Summers, helsti efnahagsráðgjafi Baracks Obama,
Bandaríkjaforseta, hefur hvatt ríkisstjórnir um allan heim til að
leggja aukið fé til aðgerða til að örva efnahagslífið. Jean-Claude
Juncker, formaður ráðherraráðs evrusvæðisins, sagði hins vegar að
fjármálaráðherrarnir hefðu komist að þeirri niðurstöðu að slíkar
aðgerðir hentuðu löndunum ekki.
Þá höfnuðu ráðherrarnir einnig hugmyndum um að dregið verði úr skilmálum, sem ríki þurfa að uppfylla til að geta tekið upp evruna, þannig að ríki geti stytt sér leiðina að evrusvæðinu.
„Þetta er ekki rétti tíminn til að hefja umræður á ný um skilyrðin fyrir aðgang að evrusvæðinu," sagði Juncker.
Á leiðtogafundi Evrópusambandsins 1. mars sl. tóku nokkrir þjóðarleiðtogar á evrusvæðinu ekki ólíklega í að sett yrði upp einskonar hraðbraut inn á svæðið en hins vegar útilokuðu þeir að slakað yrði á efnahagslegum kröfum um aðild að evrunni.
Nokkur aðildarríki Evrópusambandsins í austurhluta Evrópu, sem ekki eiga aðild að evrusvæðinu, svo sem Ungverjaland og Pólland, hafa nefnt hvort hægt væri að fá evruaðild á skömmum tíma í ljósi efnahagsástandsins í heiminum.