Fall Straums-Burðaráss í morgun gæti haft mikil áhrif á danskt viðskiptalíf. Íslenski bankinn hafði yfirtekið 75% hlut Baugs í M-Holding, sem á verslunarkeðjurnar dönsku Magasin og Illum og á jafnframt helming í byggingu Magasin við Kongens Nytorv í Kaupmannahöfn.
Hlutabréf í verslunarkeðjunum voru sett að veði fyrir láni hjá Straumi og þegar Baugur fór í greiðslustöðvun í byrjun febrúar yfirtók Straumir hlutabréfin. Leitað hefur verið kaupenda að fyrirtækjunum.
Þá yfirtók Straumur í haust húsgagnaverslunarkeðjuna Biva. Einnig kemur fram á fréttavef Berlingske Tidende, að á föstudag hefðu Straumur, tryggingasjóður dönsku verslunarinnar og Property Group, sem Straumur á stóran hlut í, stofnað eignarhaldsfélagið Pecunia, sem ætlað er að yfirtaka illa stödd fyrirtæki í samvinnu við banka.