Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra, segir að ákvörðun um yfirtöku Straums skýrist ekki einvörðungu á að bankinn hafi ekki getað staðið skil á skuldbindingum sínum í dag.
„Ef ekki hefði vantað meira upp á en þetta þá hefði verið reynt að finna leið til að bjarga bankanum yfir þann þröskuld. En það var því miður þannig að Straumur tapaði mjög miklu á síðasta ári þegar bankakerfið hrundi en náði samt að halda sér ofansjávar. Kannski þvert gegn því sem menn héldu. Síðan kemur í ljós að reksturinn er áfram þungur og það gengur á laust fé. Eignarsafnið virðist ekki vera þannig að einhverjir vilji koma að bankanum og leggja honum til eigið fé. Þannig að hann kemst í þrot því miður," segir Gylfi í samtali við mbl.is.
Straumur staðfesti við Fjármálaeftirlitið í gær að bankinn ætti að standa skil á skuldbindingum að fjárhæð 33 milljónir evra í dag, jafnvirði rúmlega 4,7 milljarða króna, en hefði aðeins handbært fé að fjárhæð 15,3 milljónir evra, jafnvirði 2,2 milljarða króna.
Blasir við að starfsemi Straums er að mestu hætt
Að sögn Gylfa er ekki búið að taka endanlega ákvörðun um framtíð Straums að öðru leyti en að skilanefnd var skipuð yfir bankanum í dag og er bankinn lokaður í dag.
„En það virðist nú blasa við að starfsemi er að mestu hætt. Það þarf auðvitað að halda út ákveðinni starfsemi til þess að halda verðmæti þeirra eigna sem eru í eignasafni Straums og koma þeim síðan í verð eftir því sem tækifæri gefst til. Svo sem mest fáist upp í kröfur. Þannig að það er nú bara þetta ferli sem er svipað og hinir bankarnir gengu í gegnum nema hvað starfsemin er allt annars eðlis heldur en þeirra. Það er ekkert útibúanet sem þarf að halda gangandi eins og var með hina stóru bankana þrjá."
Segir Haugaard misskilja hlutina
Gylfi segir að Thomas Haugaard, hagfræðingur hjá Svenska Handelsbanken í Kaupmannahöfn, misskilji hlutina þegar hann segir að með falli Straums Burðaráss séu auknar líkur á þjóðargjaldþroti. „Hættan á raunverulegu þjóðargjaldþroti hefur aukist," sagði Haugaard í samtali við Bloomberg. „Ríkisstjórnin hefur nú tekið á sig ábyrgð á meiri skuldum og spurningin er hvort íslenska ríkið sé nægjanlega öflugt til þess að bera þær byrðir," bætti Haugaard við.
„Þetta er algjör misskilningur. Straumur starfaði alls ekki ábyrgð ríkisins. Það var auðvitað þannig að ríkið ábyrgðist innistæður í þessum banka sem og öðrum en hann var ekki með mjög mikla innlánastarfsemi. Þannig að það er alls ekki útlit fyrir að ríkið lendi í einhverjum vandræðum vegna ábyrgða á innistæðum," segir Gylfi og bætir við að allar vonir standi til að eignir nægi fyrir innistæðunum og ríkið stendur ekki frammi fyrir því að tapa neinum peningum sem heitið getur á öðrum viðskiptum við bankann.
„Að vísu var Straumur búinn að fá ákveðna fyrirgreiðslu úr Seðlabankanum en það er gegn veði og ég veit ekki betur en að menn meti þau veð sem svo að þau dugi. Það er því ekkert útlit fyrir að ríkið fái neitt högg út af þessu. Að minnsta kosti ekkert sem máli skiptir," segir Gylfi að lokum.