Breska fjármálaeftirlitið ætlaði að loka starfsemi dótturfélags Straums í Bretlandi í dag vegna lausafjárvanda félagsins og er það meðal annars ástæða þess að Fjármálaeftirlitið íslenska ákvað í nótt að yfirtaka rekstur Straums, að sögn Gunnars Haraldssonar, stjórnarformanns Fjármálaeftirlitsins.
Gunnar segir að FME hafi vitað það að allar líkur voru á því að fjármálaeftirlitið breska myndi stöðva starfsemi dótturfyrirtækis Straums í London í dag en fjármálaeftirlitið breska vissi að lausafjárvandi Straums væri óviðráðanlegur, að sögn Gunnars.
Hann segir að klukkan níu í morgun hafi Straumur átt að skila inn yfirlýsingu um að bankanum hafi tekist að standa skil á þeim kröfum sem þeir áttu að standa skil á. „Ef það hefði ekki tekist, líkt og ljóst var, þá hefði breska fjármálaeftirlitið lokað starfstöðinni í London og innkallað starfsleyfið."
Eigendur Straums ætluðu ekki að setja aukið fé inn í félagið
Gunnar segir að það hafi verið mat allra sem komu að málinu, þar á meðal Straums, að áframhaldandi rekstur væri ekki mögulegur nema til kæmi aukið fé inn í fyrirtækið.
„Seðlabankinn er búinn að veita þeim alla þá fyrirgreiðslu sem hann hefur getað veitt. Þá er í raun og veru ekkert eftir," segir Gunnar. Hann staðfestir að það hafi verið alveg ljóst að eigendur Straums hafi ekki ætlað að setja aukið fé inn í rekstur bankans.
Stærsti eigandi Straums er Samson Global Holding en það félag er að mestu í eigu Björgólfs Thors Björgólfssonar.
Með yfirtökunni er hagur innistæðueigenda tryggður
Eins og fram hefur komið ætlaði Straumur að fara fram á greiðslustöðvun í morgun en það hefði þýtt ákveðin vandamál fyrir íslensk stjórnvöld, það er yfirlýsing um að innistæður væru tryggðar. Því ef um hefðbundið greiðslustöðvunarferli er að ræða þá er staða innistæðueigenda sú sama og annarra forgangskröfuhafa. Og þrátt fyrir að um forgangskröfu er að ræða hefði ekki verið tryggt að innistæðueigendur geti fengið fé sitt til baka.
„Þess vegna var nauðsynlegt fyrir Fjármálaeftirlitið að grípa inn í," segir Gunnar.