Bandaríska dagblaðið New York Times hefur selt hluta af höfuðstöðvum sínum á áttundu tröð á Manhattan. Um leið var gengið frá leigusamningi blaðsins á húsnæðinu. Alls fékk NYT 225 milljónir Bandaríkjadala fyrir 21 hæð af 52 hæðum í höfuðstöðvum blaðsins. Er þetta gert til þess að grynnka á skuldum blaðsins.
Fjárfestingafélagið W.P. Carey & Co. keypti hæðirnar og hefur endurleigt þær til NYT til fimmtán ára. Felur samningurinn í sér kauprétt NYT á húsnæðinu að nýju eftir tíu ár og er samið um að ef kaupunum verður þá greiði NYT 250 milljónir dala fyrir hæðirnar.
Salan er liður í endurskipulagningu rekstrar dagblaðsins en unnið er að endurfjármögnun skulda. Mexíkóski auðkýfingurinn Carlos Slim hefur samþykkt að veita NYT 250 milljónir dala lán og eins er NYT að leita að kaupanda á 17,75% hlut blaðsins í New England Sports Ventures, sem meðal annars á hafnaboltaliðið Boston Red Sox og leikvang liðsins, Fenway Park.
Samkvæmt upplýsingum frá NYT skuldaði útgáfufélagið ríflega einn milljarða Bandaríkjadala um áramót en sú fjárhæð hafi lækkað með láni frá Slim.
Hagnaður Times dróst saman um 47% á fjórða ársfjórðungi og ákvað félagið að greiða ekki út arð í fyrsta skipti frá því félagið fór á markað.
Auglýsingatekjur Times drógust saman um 17,6% á fjórða ársfjórðungi. Líkt og önnur bandarísk dagblöð hefur blaðið glímt við samdrátt í auglýsingatekjum í prentútgáfu blaðsins, færri kaupa blaðið og sífellt fleiri lesa það á netinu án þess að þurfa að greiða fyrir það.