Hlutabréf tóku mikinn kipp í kauphöllinni á Wall Street í kvöld og hafa ekki hækkað jafnmikið á einum degi í þrjá mánuði. Er það rakið til þess að Citibank tilkynnti í dag að hagnaður hefði verið á rekstrinum fyrstu tvo mánuði ársins og útlit væri fyrir hagnað á árinu öllu. Virðast fjárfestar hafa fyllst bjartsýni um að botni fjármálakreppunnar sé náð.
Nasdaq hlutabréfavísitalan hækkaði um 7,07% og er 1358 stig. Dow Jones vísitalan hækkaði um 5,8% og er 6926 stig og Standard & Poor's hækkaði um 6,4% og er 719 stig. Bréf deCODE hækkuðu um 4,8% og er gengi þeirra tæpt 21 sent.
Hlutabréf í Citigroup hækkuðu um 37% og gengi hlutabréfa í öðrum stórum bönkum snarhækkaði einnig, t.d. Bank of America um 28% og JP Morgan Chase um 22%.