Bill Gates, stofnandi bandaríska hugbúnaðarfyrirtækisins Microsoft, er aftur ríkasti maður heims, að mati bandaríska viðskiptatímaritsins Forbes. Eignir Gates eru metnar á 40 milljarða dala en eignir Warren Buffett, sem talinn var ríkastur á síðasta ári, eru nú metnar á 37 milljarða.
Björgólfur Thor Björgólfsson kemst á listann í 701.-793. sæti en eignir hans eru metnar á 1 milljarð dala, jafnvirði 112 milljarða króna. Í fyrra mat Forbes eignir Björgólfs á 3,5 milljarða dala, 393 milljarða króna samkvæmt núverandi gengi, en hann var þá í 307. sæti á lista blaðsins.
Eignir ríkasta fólks heims hafa rýrnað verulega undanfarið ár og nú eru 793 menn taldir eiga milljarð dala eða meira; í fyrra voru þeir 1125 talsins. Samtals rýrnuðu eignir þeirra úr 4,4 billjónum dala í 2,4 billjónir.
„Stærsta fréttin í dag er, að við erum hér enn og það er enn hægt að finna milljarðamæringa," sagði Monie Begley, talsmaður Forbes, á blaðamannafundi í kvöld.
Eignir Gates minnkuðu úr 58 milljörðum dala í 40 milljarða á síðasta ári. Eignir Buffetts minnkuðu hins vegar úr 62 milljörðum í 37 milljarða og eignir mexíkóska kaupsýslumannsins Carlos Slim Helú, sem var næstríkasti maður heims í fyrra, minnkuðu úr 60 milljörðum dala í 35 milljarða. Hann er í 3. sæti nú.
Flestir milljarðamæringarnir á lista Forbes eru Bandarískir, þar af 10 af 20 ríkustu mönnum heims. Flestir milljarðamæringar búa í New York, 55 og 28 búa í Lundúnum. 25 milljarðamæringar búa í Moskvu en rússneskum auðkýfingum hefur fækkað mjög og eignir þeirra rýrnað á árinu. Þeir voru 87 talsins í fyrra en eru nú 32. Enginn þeirra kemst í hóp 20 ríkustu manna heims.
Tveir Svíar komast á lista yfir 20 ríkustu mennina, þeir Ingvar Kamprad, stofnandi Ikea, og Stefan Persson, eigandi Hennes & Mauritz.
Meðalaldur milljarðamæringanna er 63,7 ár. Sá yngsti er Þjóðverjinn Albert von Thurn und Taxis sem er 25 ára og er talinn eiga jafnvirði 2,1 milljarðs dala. Það vekur athygli að annað undrabarn, Mark Zuckerberg sem stofnaði vefinn Facebook, er ekki lengur á listanum.
Einn milljarðamæringur, sem varla er ánægður með að vera á listanum, er Joaquin Guzman Loera, 54 ára glæpaforingi, sem talinn er hafa aflað sér milljarðs dala með fíkniefnasölu. Loera er á lista bandarísku alríkislögreglunnar FBI yfir þá sem hún vill helst koma höndum yfir.
Listi Forbes yfir ríkasta fólk heims árið 2009: