Frekari greiðslustöðvun hafnað

Stefán H. Hilmarsson, aðstoðarforstjóri Baugs og Ragnar H. Hall lögmaður …
Stefán H. Hilmarsson, aðstoðarforstjóri Baugs og Ragnar H. Hall lögmaður Baugs skoða úrskurðinn í héraðsdómi í dag. mbl.is/Golli

Arngrímur Ísberg, héraðsdómari, hafnaði í dag ósk Baugs Group um frekari framlengingu á greiðslustöðvun félagsins. Glitnir og Íslandsbanki höfðu mótmælt því að Baugur fengi framlengingu á greiðslustöðvuninni.

Í niðurstöðu sinni segir Arngrímur, að ráðagerðir Baugs um fjárhagslega endurskipulagningu séu ekki raun­hæfar og þar með ekki líklegar til að koma nýrri skipan á fjármál félagsins. Af gögnum málsins megi ráða, að skuldir Baugs séu mjög háar og félagið segir að eignir þess hafi lækkað mikið síðustu misseri vegna ástandsins á fjármálamörkuðum heimsins. Þá hafi dótturfélag Baugs í Bretlandi verið tekið úr höndum félagsins og sett undir stjórn manna á vegum yfirvalda. 

Vitnað er til þeirra sjónarmiða Baugs, að félagið telji nauð­syn­legt að bíða um sinn og verja eignir sínar í von um að úr muni rætast á fjár­mála­mörkuðum.  Einnig sé nauðsynlegt fyrir félagið að hefja nauða­samn­ings­um­leitanir. Dómarinn segir hins vegar, að hvorugt þessara atriða sé til þess fallið að koma nýrri skipan á fjármál Baugs. Hið fyrra feli í raun í sér að bíða eftir betri tíð án þess að nokkuð sé hægt að segja til um hvenær hennar sé að vænta.

Þessi niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur er endanleg og þýðir, að hvaða kröfuhafi sem er getur krafist gjaldþrotaskipta á félaginu en bæði Íslandsbanki og Glitnir hafa lýst þeirri skoðun að taka eigi bú félagsins til gjaldþrotaskipta. Stjórn Baugs getur einnig óskað eftir gjaldþrotaskiptum en stjórnarfundur verður haldinn síðdegis.

Stefán Hilmarsson, aðstoðarforstjóri Baugs, vildi ekki tjá sig um úrskurðinn. Ragnar H. Hall, lögmaður Baugs, sagði þegar hann var spurður um hvað þessi niðurstaða þýddi að hugsanlega myndi móðurfélagið, Baugur, fara í gjaldþrotaskipti og einnig dótturfélög þess. 

Þegar óskað var eftir greiðslustöðvun Baugs í byrjun febrúar var jafnframt óskað eftir því að 14 dótturfélög fengju einnig greiðslustöðvun. Fallið var síðar frá þeirri ósk. Umrædd dótturfélög eru eru BG Ventures, M Holding,  F-Capital, Sólin skín, Milton, Unity Investments, M-Invest, BGE eignarhaldsfélag, Sports Investments, BG Newco 5, A-Holding, BG Equity, Styrkur Invest og Stoðir Invest.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK