Stjórn Baugs Group ákvað á fundi sínum nú síðdegis að óska eftir því að félagið verði tekið til gjaldþrotaskipta. Var sú ákvörðun tekin í kjölfar þess að Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði í dag ósk Baugs um að greiðslustöðvun verði framlengd.
Gera má ráð fyrir að það taki skamman tíma að afgreiða gjaldþrotabeiðnina í Héraðsdómi Reykjavíkur. Stærsti eigandi Baugs er Gaumur, eignarhaldsfélag Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og fjölskyldu hans. Gaumur keypti Haga af Baugi í júlí í fyrra með fulltingi Kaupþings, sem fjármagnaði kaupin. Meðal eigna Haga eru Bónus, Hagkaup, 10-11, Húsasmiðjan, Útilíf, Debenhams og fleiri verslanir.
Fram kom í úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur í dag, að skuldir Baugs umfram eignir væru 148 milljarðar króna, samkvæmt yfirliti frá Baugi í janúar.
Í tilkynningu frá stjórn Baugs segir Kristín Jóhannesdóttir, stjórnarformaður félagsins, að niðurstaða héraðsdóms í dag hafi verið mikil vonbrigði.
„Við teljum, að Baugur uppfylli öll skilyrði fyrir áframhaldandi greiðslustöðvun og að áætlanir um fjárhagslega endurskipulagningu hafi verið raunhæfar. Þessi niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur frá í dag kom því á óvart. Stjórnendur og starfsmenn Baugs hafa unnið hörðum höndum við að bjarga verðmætum í fyrirtækinu í samvinnu við kröfuhafa félagsins alveg síðan í haust þegar bankakerfið hrundi á Íslandi í kjölfar lánsfjárkreppunnar. Við töldum okkur komin langleiðina með að ná samningum, sem allir hefðu getað vel við unað. En nú er komið að leiðarlokum og í ljósi þeirra breytinga, sem óhjákvæmilega verða, vill stjórn Baugs þakka starfsmönnum og öðrum þeim sem Baugur hefur átt samskipti við fyrir gott samstarf á undanförnum árum."