Stjórnvöld á Íslandi vonast til þess að í næsta mánuði verði hægt að ganga frá samkomulagi við erlenda lánadrottna íslensku bankanna sem komnir eru í þrot. Bloomberg fréttastofan hefur þetta eftir Gylfa Magnússyni, viðskiptaráðherra. Segir Gylfi að lánadrottnum verði jafnvel boðið að gerast hluthafar í bönkunum.
Að sögn Gylfa vonast hann til þess að hægt verði að ganga frá þessu í apríl en ekki sé nauðsynlegt að sama lausn finnist í öllum málunum.
Segir Gylfi að lífeyrissjóðir verði ekki knúnir til þess að selja erlendar eignir sínar í staðinn fyrir krónur. Enda sé um eignir lífeyrisþega framtíðarinnar að ræða. Lífeyrissjóðirnir verði ekki notaðir sem höggdeyfir fyrir fjármögnun ríkissjóðs og seðlabankans. Hann segir að þegar gjaldeyrishöftunum, sem hafa verið við lýði frá því í nóvember, verði aflétt þá muni ríkisstjórnin gera það sem í hennar valdi stendur til þess að reyna að verja krónuna fyrir falli.
Hann segir ljóst að gjaldeyrishöftin verði ekki afnumin á fyrri hluta ársins en óljóst er hvort það gerist á síðari hluta ársins. Það sé ekki skynsamlegt að dagsetja þá ákvörðun að svo stöddu.