Fall Straums í vikunni hefur það í för með sér, að tryggingasjóður innlána í Danmörku þarf að greiða dönskum innistæðueigendum í bankanum bætur. Er það í fyrsta skipti í 14 ár sem virkja þarf þennan sjóð, að sögn danskra fjölmiðla.
Hópur Dana átti fé á innlánsreikningum hjá Straumi í Danmörku. Að sögn Berlingske Tidende þurfi þessir viðskiptavinir bankans nú að sækja fé sitt á þrjá mismunandi staði. Tryggingasjóður innlána á Íslandi ábyrgist fyrstu 156 þúsund krónurnar en það jafngildir um 3 milljónum króna. Danski tryggingasjóðurinn greiðir næstu 144 þúsund krónurnar en þeir sem eiga meira inni hjá bankanum verða að sækja það til Finansiel Stabilitet, sérstakrar danskrar ríkisstofnunar, sem á að tryggja stöðugleika í danska bankakerfinu.
Blaðið hefur eftir Henrik Bjerre-Nielsen, framkvæmdastjóra Finansiel Stabilitet, að þegar hafi verið greiddir út fjármunir til innistæðueigenda Straums. Hann segir hins vegar ekki ljóst hve marga viðskiptavini bankinn hafði og hve háa upphæð sé um að ræða.