„Græðgin varð skynseminni yfirsterkari. Áhættusækni og óhóf varð einkenni alltof margra fyrirtækja og alltof margir forystumenn atvinnulífsins misstu fótanna í þessum takti,“ sagði Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, í ávarpi sínu á Viðskiptaþingi Viðskiptaráðs, sem nú stendur yfir á Hilton Nordica.
Jóhanna sagði að íslenskt viðskiptalíf og þeir sem stæðu að Viðskiptaþingi væru og hefðu verið meðal mikilvægustu áhrifavalda í þjóðfélaginu fyrr og nú.
Jóhanna sagði að kannanir sýndu að almenningur telji að þeir sem stýrðu bönkunum bæru mesta ábyrgð á því hvernig komið væri fyrir okkur og flestir sérfræðingar sem hefðu farið yfir þróun mála væru sömu skoðunar.
Viðskiptalífið sleit sig úr siðferðilegu sambandi við þjóðina
„Ég hef haldið því fram og ég ítreka það hér að viðskiptalífið hér á landi og víða annars staðar, sleit sig úr siðferðilegu sambandi við þjóðina. Fyrir það blæðir almenningur nú þegar á fjórtanda þúsund manna ganga atvinnulausir og gríðarlegir fjármunir hafa tapast hjá einstaklingum og fyrirtækjum,“ sagði Jóhanna.
Hún sagðist heita á alla þá sem teldu sig hafa farið óvarlega og sýnt óhóf að leggja nú sitt af mörkum til samfélagsins. „Ég trúi því ekki að ungt og öflugt athafnafólk vilji segja sig svo úr lögum við samfélag sitt að það þurfi að sækja fjármuni þeirra í erlend skattaskjól með mikilli fyrirhöfn á kostnað skattborgara,“ sagði Jóhanna. Hún sagði að aldrei fyrr hefði verið jafn rík þörf á því að viðskiptalífið sýndi samfélagslega ábyrgð og legði sitt af mörkum. Aldrei fyrr hefði verið jafn rík þörf fyrir jafnræði og virðingu og mikilvægt væri að við nýttum þann mannauð sem þjóðin byggi yfir.
Mat á nýju bönkunum fyrir lok mars
Jóhanna sagði að það hefði háð starfsemi bankanna að efnahagsreikningur þeirra hefði ekki verið endanlega skilgreindur. „Bankar sem búa við slíka óvissu eiga vitanlega örðugt með að starfa eðlilega. Við vitum að bankar eins og önnur fyrirtæki þurfa að byggja ákvarðanir sínar á traustum upplýsingum um eigin stöðu,“ sagði Jóhanna. Hún sagði að mat á nýju bönkunum myndi liggja fyrir fyrir lok mars.
„Það er síðan á grundvelli þessa mats sem ríkisstjórnin mun taka afstöðu til þess hversu miklum fjármunum bönkunum verða lagðir til til þess að skapa þeim svigrúm til að veita þeim, sem á þurfa að halda, eðlilega fjármálaþjónustu. Samkvæmt áætlunum er stefnt að því að endurfjármögnun bankanna verði lokið síðari hluta þessa mánaðar,“ sagði Jóhanna.
Hún sagði að nýr seðlabankastjóri yrði skipaður eftir kosningar og að þá yrði jafnframt skipað í stöðu aðstoðarseðlabankastjóra.
Höftin ekki losuð á næstunni
Jóhanna sagði að þrátt fyrir að allir væru sammála um að losa um gjaldeyrishöftin sem allra fyrst þá hefðu aðstæður ekki skapast til þess að gera slíkt mögulegt. „Áður en hægt verður að losa um þau og að aflétta þeim að lokum, verður að draga verulega úr þeirri óvissu sem einkennir íslenskt efnahagslíf. Skýrari sýn verður að liggja fyrir um skuldastöðu þjóðarbúsins,“ sagði Jóhanna. Hún sagði jafnframt að ef höftunum yrði aflétt of snemma gæti krónan fallið hratt, a.m.k til skemmri tíma, með slæmum áhrifum fyrir skuldsett fyrirtæki og heimili í landinu og erfiðara yrði að lækka vexti.
Jannari skilar niðurstöðum síðar í þessum mánuði
Jóhanna sagði að finnski fjármálasérfræðingurinn Kaarlo Jannari myndi skila niðurstöðum rannsóknar sinnar á lagaumhverfi íslensk fjármálamarkaðar síðar í þesum mánuði. „Ég er sannfærð um að hann muni leggja til breytingar sem eru til þess fallnar að styrkja okkur til framtíðar og endurbyggja trúverðugleika okkar á alþjóðvettvangi,“ sagði Jóhanna.
„Íslendingar eru vel menntuð og dugleg þjóð. Við erum þekkt fyrir sveigjanleika og ég er sannfærð um að sá sveigjanleiki mun koma okkur Íslendingum fyrr í gegnum efnahagslægðina en öðrum þjóðum sem glíma við svipaðan vanda,“ sagði Jóhanna.