Gríðarlega góð mæting er á viðskiptaþing Viðskiptaráðs sem nú stendur yfir á Hilton Nordica. Fram kom í ávarpi Erlends Hjaltasonar, formanns Viðskiptaráðs, að mikilvægt væri að afnema gjaldeyrishöft og lækka stýrivexti þegar í stað. Hann sagði að peningastefna síðustu ára hefði beðið skipbrot og taka þyrfti upp nýjan gjaldmiðil.
Erlendur, sem er jafnframt forstjóri Exista, sagði að alþjóðahagkerfið hefði ekki staðið frammi fyrir jafn miklum vanda lengi. Mikilvægt væri að fólk liti í eigin barm og viðurkenndi hvað hefði mátt betur fara.
Hættur í kjölfar efnahagsþrenginga væru margvíslegar, þ.á.m. fjöldaflótti úr viðskiptalífinu. Þeir sem líklegastir væru til að flytjast búferlum væru ungt fólk. Einnig væri líklegt að fjármagnseigendur flyttu fjármagn sitt annað. Stjórnvöld hefðu dregið úr flótta með höftum, höftin væru hins vegar skaðleg og því þyrfti að afnema þau.
Erlendur sagði jafnframt að ef ekki tækist að tryggja stöðugleika yrðu fyrirtæki fyrir meiri búsifjum og fólk og fyrirtæki færu annað til að leita traustari hagkerfa. „Viðhorfsbreyting er einn stærsti vandi íslensks samfélags í dag,“ sagði Erlendur. Tortryggni og jafnvel rætni gætti í garð fyrirtækja og forsvarsmanna þeirra. Þrátt fyrir að þessi viðhorf væru að einhverju leyti skiljanleg fældu þau menn frá atvinnurekstri.
Erlendur sagði að sumir vildu kenna alþjóðavæðingu og markaðsvæðingu um núverandi vandamál efnahagskerfisins. Hann sagði þó um afbökun þessara hugtaka að ræða. Einkaframtakið nýttist best hagkerfinu í heild. „Rök þeirra, sem segja að grunnforsendur markaðsbúskapar séu brostnar, eru veik,“ sagði Erlendur.
Hann sagði að brýnasta úrlausnarefnið væri að sannfæra Íslendinga um að landið væri land tækifæra en ekki hnignunar. Koma þyrfti á stöðugleika sem þjóðin ætti skilið.
Erlendur sagði að skilgreina þyrfti samningsmarkmið aðildarviðræðna við Evrópusambandið og að nauðsynlegt væri að taka upp nýjan gjaldmiðil. Hann sagði jafnframt að aukin skattbyrði væri ekki til þess fallin að hjálpa fyrirtækjum. Hagkvæmt rekstrar- og skattaumhverfi væri nauðsynlegt fyrirtækjunum í landinu.
Hann sagði að vandi lands og þjóðar væri mikill og margir bæru ábyrgð á honum. Andspænis kreppunni skipti lausn á þeim vanda mestu máli. Breytingar væru nauðsynlegar en forðast bæri öfgar.