Lífeyrissjóðir flýðu Straum

Lífeyrissjóðir tóku út af innstæðureikningum í Straumi og átti það þátt í að veikja lausafjárstöðu bankans sem að lokum varð honum að falli. Sjóðirnir geymdu háar fjárhæðir inni í Straumi, meðal annars vegna þess að skuldabréfum, sem lífeyrissjóðirnir áttu á bankann, var breytt í innlán seint á síðasta ári.

Umbreyting skuldabréfa í innlán var gerð til að koma til móts við áhyggjur stjórnenda lífeyrissjóðanna um afdrif krafna á Straum eftir að stóru viðskiptabankarnir féllu í október 2008. Til að mæta þessum velvilja stjórnenda Straums í garð lífeyrissjóða lögðu sjóðirnir 30% til 50% til viðbótar í innlán.

Innlánin voru bundin til jafn langs tíma og líftími skuldabréfanna var. Viðbótarinnlánin voru hins vegar bundin í skemmri tíma. Þegar sá tími leið notuðu lífeyrissjóðirnir tækifærið og tóku peningana út samkvæmt heimildum Morgunblaðsins. Innan úr Straumi er að heyra nokkur vonbrigði með að bankinn naut ekki meiri stuðnings stjórnenda lífeyrissjóðanna eftir að komið var til móts við þá. Lífeyrissjóðirnir tóku þessa ákvörðun þrátt fyrir að Straumur byði hærri ávöxtun en ríkisbankarnir og ríkisstjórnin hefði gefið út yfirlýsingu um tryggingu innlána. Engir samningar voru brotnir.

Lausafjárvandræði Straums urðu til þess að bankinn gat ekki staðið við skuldbindingar sínar. Ljóst er að eiginfjárhlutfall bankans hafði verið viðunandi og stóð í um 17% þegar bankinn féll. Hins vegar varð vart við að innlánin láku út, það er að meira var tekið út úr bankanum en lagt var inn í hann, frá því í október síðastliðinn.

Innlánin fóru úr því að vera rétt rúmlega milljarður evra í 400 milljónir evra á þessu tímabili. Lausafjárstaða bankans versnaði og Seðlabankinn lánaði Straumi 133 milljónir evra í desember gegn veði í fjármálafyrirtækinu eQ.

Komið hefur fram að innstæður í Straumi nemi um 60 milljörðum króna. Íbúðalánasjóður á um 22 milljarða króna og um sex milljarðar eru í eigu fyrirtækja og félaga samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins. Afgangurinn, eða um 32 milljarðar króna, er að miklu leyti í eigu lífeyrissjóða.

Ákvörðun stjórnvalda að taka Straum yfir hefur hleypt illu blóði í kröfuhafa sem eru að koma til landsins til að gæta hagsmuna sinna.

Forsvarsmenn lífeyrissjóðanna vildu ekki tjá sig um málið.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK