Tap Byrs 28,9 milljarðar króna

Byr.
Byr. mbl.is/G.Rúnar

Tap Byrs sparisjóðs nam 28.881 milljónum króna á síðasta ári en árið 2007 nam hagnaður Byrs 7.929 milljónum króna. Virðisrýrnun útlána, krafna og óefnislegra eigna nam 29.202 m.kr. Eigið fé var 16.213 m.kr. og eiginfjárhlutfall sparisjóðsins 8,3% og er því innan lögbundinna marka.

Heildareignir Byrs námu  í lok ársins 253.309 m.kr., sem jafngildir 37% hækkun frá árinu áður. Rekstraráætlun Byrs 2009 gerir ráð fyrir jákvæðri afkomu og hefur sparisjóðurinn með hliðsjón af niðurstöðu uppgjörsins allar forsendur til að ná aftur fyrri styrk á næstu árum, að því er segir í tilkynningu.

Byr sækir um aðstoð

„Að baki er rekstrarár, sem er það erfiðasta í sögu Byrs þegar litið er til síðasta ársfjórðungsins. Ársuppgjörið er lýsandi fyrir þá afdrifaríku rás atburða sem hófst á haustmánuðum með þroti stóru viðskiptabankanna og leitt hefur hvert áfallið á fætur öðru yfir fyrirtæki og heimili í landinu. Virðisrýrnun útlána, krafna og óefnislegra eigna Byrs má m.a. rekja til þrots stóru viðskiptabankanna og þeirra fjárhagslegu erfiðleika sem farið hafa vaxandi hjá fyrirtækjum og heimilum upp frá því. Þá var vegna þeirrar óvissu sem er uppi í efnahags- og atvinnulífi, enn fremur talið nauðsynlegt að ganga lengra í afskriftum en ella hefði verið gert.

Þó að Byr hafi staðið af sér áföll undanfarinna mánuða er ljóst, að hann stendur ásamt öðrum sparisjóðum frammi fyrir verulega breyttu rekstrarumhverfi á yfirstandandi rekstrarári. Stjórnvöld hafa sýnt þessum breyttu aðstæðum skilning. Bent hefur verið á mikilvægi sparisjóðanna fyrir vöxt og viðgang nærsamfélaga þeirra og það mótvægi sem þeir mynda gagnvart öðrum fjármálastofnunum.

Þá er í lögum nr. 125/2008 vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði ákvæði sem heimilar eiginfjárframlag til sparisjóða og mun Byr í ljósi breyttra rekstraraðstæðna leita eftir því framlagi. Lögin heimila ríkissjóði að leggja sparisjóðum til fjárhæð sem nemur allt að 20% af bókfærðu eigin fé í árslok 2007, gegn stofnfjárbréfum í viðkomandi sparisjóði, sem endurgjald í samræmi við það eignfjárframlag sem lagt er til," að því er segir í tilkynningu frá Byr.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK