Flugfélagið Emirates í Dubai er ekki ánægt með Airbus A380 risaþoturnar fjórar sem það hefur þegar fengið afhentar en alls pantaði félagið á sínum tíma 58 vélar af þessari nýju gerð. Ýmsir gallar eru sagðir hafa komið upp í vélunum sem taka allt að 525 farþega.
Að sögn þýska tímaritsins Der Spiegel hefur komið í ljós að stundum kviknar í rafmagnsleiðslum í þotunni. Einnig hafa komið upp vandamál í sambandi við hreyflana og erfiðleikar við að innrétta farþegarýmið. Til greina kemur að frestað verði afhendingu vélanna 54 sem félagið á eftir að fá.