Á fimmtudaginn tilkynnir ný peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands vaxtaákvörðun sína en Greining Íslandsbanka telur að niðurstaða nefndarinnar verði sú að lækka vexti um 0,5 prósentustig og vextir verði í kjölfarið 17,5%.
„Forsendur hafa skapast fyrir lækkun stýrivaxta enda er fátt sem heldur verðbólgunni uppi um þessar mundir þegar stöðugleiki hefur náðst á gjaldeyrismarkaði, slaki er á vinnumarkaði og húsnæðisverð er byrjað að lækka. Þá hefur hrávöruverð verið á niðurleið, sem og annar erlendur verðbólguþrýstingur. Verðbólgan sem í upphafi árs mældist 18,6% er nú komin í 17,6% og stefnir enn lægra á næstu mánuðum. Vaxtamunurinn ætti að vera nægur til að halda styrk krónunnar.
Með stöðugleika á gjaldeyrismarkaði, sterkari krónu og lækkun verðbólgunnar eru forsendur fyrir því að Seðlabankinn lækki stýrivexti sína hratt og verði komnir niður í 11,5% í lok þessa árs og 5,5% í lok næsta árs," að því er segir í Morgunkorni Greiningar Íslandsbanka.
Markmið Seðlabankans og stjórnvalda í samvinnu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn (AGS) er að koma á stöðugleika á gjaldeyrismarkaði og styðja við gengi krónunnar.
Meginverkefnið nú er því að byggja upp trúverðugleika efnahagsstefnunnar þannig að hægt verði að aflétta gjaldeyrishömlum án þess að gengi krónunnar lækki verulega. Spár um gengi krónunnar snúast um þá skoðun hvort þetta muni takast eða ekki, samkvæmt Morgunkorni.
„Þrátt fyrir að við séum að etja við afar stóra bankakreppu teljum við að meiri en minni líkur séu á því að markmið stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins náist í stórum dráttum.
Í því felst að við búumst við að stöðugleiki verði á gjaldeyrismarkaði á næstunni og að krónan styrkist nokkuð frá núverandi gildi. Við reiknum með að stjórnvöld í samvinnu við AGS fari í að afnema gjaldeyrishöftin á seinni helmingi ársins en haldi styrk krónunnar með háum stýrivöxtum og aðhaldi í aðgangi bankanna að lánum frá Seðlabankanum líkt og tilgreint er í 19. tölulið viljayfirlýsingar um áform íslenskra stjórnvalda vegna fjárhagslegrar fyrirgreiðslu hjá AGS," samkvæmt Morgunkorni Íslandsbanka.