Reiðin yfir fyrirætlunum um að greiða stjórendum hjá tryggingarisanum AIG í Bandaríkjunum bónusa er svo mikil, að talin er hætta á því að þessi aðgerð stjórnar félagsins muni hafa verulega neikvæð áhrif á tilraunir Baracks Obama til að endurreisa efnahagslífið í landinu.
Obama fól undirmönnum sínum í gær að leita allra leiða til að koma í veg fyrir fyrirhugaðar bónusgreiðslur hjá AIG upp á 165 milljónir dollara, en tryggingafélagið fékk á síðasta ári gríðarlega ríkisaðstoð. Litlar líkur eru taldar á því að af því geti orðið.
Samkvæmt skoðanakönnunum hefur reiði almennings farið stigvaxandi. Þingmaðurinn Charles Grassley hefur lagt til að stjórnendur AIG fari að dæmi japanskra stjórnenda og biðjist opinberlega afsökunar á framferði sínu með því að fremja sjálfsmorð.