Insolidum, þrotabú í eigu Daggar Pálsdóttur, lögmanns og varaþingmanns Sjálfstæðisflokksins, og Páls Ágústs Ólafssonar, sonar hennar, á að greiða Saga Capital Fjárfestingarbanka tæpar 300 milljónir króna auk dráttarvaxta samkvæmt niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur í morgun.
Insolidum tók lán hjá Saga Capital í júlí 2007, til þess að kaupa stofnfjárbréf í SPRON. Stafar málið af því að bankinn gjaldfelldi lánið og fór í innheimtu þess, þar eð eigendur Insolidum veittu ekki frekari tryggingar fyrir láninu eftir að stofnfjárbréfin hríðféllu í verði.
Við málflutninginn bar lögmaður Insolidum því við að samningum félagsins við bankann hefði verið rift með lögmætum hætti, enda hefðu lög um verðbréfaviðskipti og verklagsreglur Saga Capital verið brotin í viðskiptunum. Samningarnir veiti ekki heimild til að ganga að eigum félagsins.
Í dóminum frá því í morgun kemur fram að Saga Capital kallaði 24. október 2007 eftir auknum tryggingum vegna mikillar lækkunar á virði bréfa SPRON og lækkandi tryggingaþekju. Í fyrstu hafnaði Insolidum ekki frekari tryggingum, en óskaði eftir fresti til að leysa vandann í samráði við viðskiptabanka sinn, Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis. Eftir ítrekaðar áskoranir um frekari tryggingar, og án þess að brugðist væri við af hálfu Insolidum, gjaldfelldi Saga Capital kröfu sína samkvæmt lánssamningi 8. nóvember 2007
Félag Daggar Pálsdóttur á að greiða allan málskostnað, 2,8 milljónir króna.