Undanfarna mánuði hefur Nýi Kaupþing banki átt í viðræðum við eigendur Pennans ehf. um endurskipulag á fyrirtækinu. Markmiðið hefur verið að treysta undirstöður rekstrarins. Viðræðunum er nú lokið og varð niðurstaðan sú að Nýi Kaupþing banki mun taka yfir rekstur Pennans ehf.
Nýi Kaupþingi gerir ráð fyrir að rekstur Pennans á Íslandi verði að mestu leyti með óbreyttu sniði, að því er segir í tilkynningu.
Penninn ehf. á og rekur verslanir Eymundsson og Pennans, ásamt verslun Saltfélagsins. Penninn á einnig hlut í Te og Kaffi og rekur ásamt þeim kaffihús undir nafni Te & Kaffi. Auk þess átti Penninn verslunina Habitat á Íslandi, meirihluta í húsgagnafyrirtækinu Coppa í Lettlandi, meirihluta í GH ljósum í Garðabæ, rekstrarvörukeðjuna Officeday sem starfar í Finnlandi, Eistlandi, Lettlandi og Litháen og kaffiframleiðandann Melna Kafija ásamt því að eiga meirihluta í Insomnia kaffihúsakeðjunni sem starfrækt er á Írlandi, samkvæmt upplýsingum á vef Pennans.
Í dag starfa yfir 300 manns hjá Pennanum en fyrirtækið var selt til hóps fjárfesta undir forystu Kristins Vilbergssonar sumarið 2005 en Penninn hefur verið starfræktur frá árinu 1932.
Ekki fengust upplýsingar hjá Kaupþingi um hvort breytingar verða gerðar á stjórnendum fyrirtækisins en Kristinn er forstjóri þess. Ekki heldur hvort starfsmönnum verði fækkað eða verslunum lokað.