Fjárfestingarfélagið Suðurnesjamenn ehf. er gjaldþrota og auglýst hefur verið eftir kröfum í þrotabúið. Suðurnesjamenn ætluðu að kaupa hlut í Hitaveitu Suðurnesja en enduðu á að fjárfesta í Sparisjóði Keflavíkur, Icebank og Bláa lóninu. Var það meðal annars fjármagnað af Icebank.
Í frétt viðskiptablaðs Morgunblaðsins 4. september síðastliðinn sagði að Icebank, sem nú heitir aftur Sparisjóðabankinn, hafði sent stjórn Suðurnesjamanna bréf og farið fram á að félagið leggi fram 2,5 milljarða króna í tryggingu fyrir láni sem notað var til að kaupa hlut í Sparisjóði Keflavíkur árið 2007 Lánið, sem er erlent, hafi hækkað mikið og verðmæti eignarhlutarins í Sparisjóði Keflavíkur hrunið. Það var ekki gert.
Grímur Sæmundsen í Bláa lóninu var framkvæmdastjóri félagsins og er einn hluthafa í gegnum félagið Hvatningu. Aðrir eigendur tengjast útgerðarfélögunum Þorbirni – Fiskanesi, Nesfiski og Vísi í Grindavík. Einnig átti sjálfur Sparisjóður Keflavíkur hlut um tíma og Kaupfélag Suðurnesja er hluthafi.
Ásamt fjárfestingu í Sparisjóði Keflavíkur keypti dótturfélag Suðurnesjamanna 8,5% í Icebank þegar Byr og SPRON seldu sína hluti seint árið 2007. SPRON lánaði fyrir þeim kaupum.
„Hér með er skorað á alla þá, sem telja til skulda eða annarra réttinda á hendur búinu eða eigna í umráðum þess, að lýsa kröfum sínum fyrir undirrituðum skiptastjóra í búinu innan tveggja mánaða frá fyrri birtingu innköllunar þessarar.
Kröfulýsingar skulu sendar skiptastjóra að Borgartúni 25, 105 Reykjavík.
Skiptafundur til að fjalla um skrá um lýstar kröfur og ráðstöfun á
eignum og réttindum búsins verður haldinn á skrifstofu skiptastjóra að
Borgartúni 25, Reykjavík, á ofangreindum tíma,“ segir í auglýsingu frá skiptastjóranum Sveini Andra Sveinssyni.