Björgólfur Thor Björgólfsson skrifaði einkavæðingarnefnd bréf þar sem hann hótaði, fyrir hönd Samson, að slíta viðræðum um kaup á Landsbankanum tveimur dögum áður en skrifað var undir samkomulag þess efnis 18. október 2002.
Umrætt bréf er meðal þeirra gagna framkvæmdanefndar um einkavæðingu sem varða sölu Landsbankans og Búnaðarbankans og Morgunblaðið hefur fengið fullan aðgang að. Á næstu dögum verður farið ítarlega yfir þau gögn á síðum Morgunblaðsins. Í bréfinu segir að „verðbil Samson og forsendur um eignarhluti hafa verið þekktar frá fyrsta degi. Að gera þessi atriði að bitbeini nú á síðari stigum viðræðna bendir til þess að önnur sjónarmið en fagleg séu farin að vera ráðandi við ákvarðanatöku. Ofangreint tilboð gildir til kl. 17:00 fimmtudaginn 17. október 2002. Að öðrum kosti lítur Samson svo á að ríkið hafi slitið viðræðum við félagið.“
Heimildir Morgunblaðsins herma að fundað hafi verið fram á nótt þann fimmtudag í Þjóðmenningarhúsinu til að fá niðurstöðu í málið. Daginn eftir var skrifað undir samkomulag um kaup á 45,8% hlut ríkisins í Landsbankanum.