SPRON til Kaupþings

Gunnar Haraldsson, stjórnarformaður Fjármálaeftirlitsins og Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra, kynntu aðgerðir …
Gunnar Haraldsson, stjórnarformaður Fjármálaeftirlitsins og Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra, kynntu aðgerðir vegna sparisjóðanna mbl.is/Golli

Fjármálaeftirlitið hefur tekið SPRON og Sparisjóðabankann yfir og verður starfsemi þeirra flutt til annarra fjármálastofnana. SPRON til Nýja Kaupþings og Sparisjóðabankinn til Seðlabanka Íslands. Rekstur annarra sparisjóða verður tryggður. Þetta kom fram í máli viðskiptaráðherra, Gylfa Magnússonar á blaðamannafundi í dag.

Skilanefnd verður sett yfir SPRON og er ljóst að einhverjir starfsmenn SPRON munu ekki fá vinnu áfram en einhverjir fá vinnu hjá Nýja Kaupþingi. Viðskiptavinir SPRON fá, að því er fram kom á fundinum, sjálfkrafa aðgang að innstæðum sínum og njóta annarrar bankaþjónustu hjá Nýja Kaupþingi. Sama gildir um viðskiiptavini Netbankans.

Engin skilanefnd verður sett yfir Sparisjóðabankann (Icebank) enda starfsemi hans með öðrum hætti. Greiðslumiðlun hans flyst til Seðlabankans. Reiknað er með að bankinn fari í hefðbundið greiðslustöðvunarferli.

Fram kom hjá Gylfa að stjórnvöld hefðu ákveðið að grípa til samhæfðra aðgerða til að verja hagsmuni viðskiptavina sparisjóðanna og tryggja bankaþjónustu um allt land. Með þeim aðgerðum hafi styrkum stoðum verið skotið undir áframhaldandi starfsemi sparisjóða og þeim gert kleift að taka virkan þátt í endurreisn hagkerfisins. 

Af þessu tilefni áréttar ríkisstjórnin að innstæður í innlendum viðskiptabönkum og sparisjóðum og útibúum þeirra hér á landi eru tryggðar að fullu.

Sagði Gylfi að að SPRON og Sparisjóðabankinn hafi starfað með undanþágu undanfarna mánuði varðandi eiginfjárstöðu. Fyrirtækin hafa fengið lausafjárfyrirgreiðslu hjá Seðlabankanum með skilyrðum um að samkomulag næðist við lánardrottna um lausn eiginfjárvanda fyrirtækjanna gegn því að þau fengju eiginfjárframlag frá ríkissjóði. Einnig væri það skilyrði sett að fullnægjandi veð yrðu lögð fram til að áhætta ríkissjóðs yrði takmörkuð.  Gylfi sagði að rætt hafi verið við lánardrottna um hugsanlega endurfjármögnun skulda en lausafjárstaðan hafi haldið áfram að versna. Því hafi verið óhjákvæmilegt að grípa inn í rekstur SPRON og Sparisjóðabankans.

„Ég hefði gjarnan viljað sá þessa sögu enda öðruvísi. SPRON og Icebank eru stofnanir sem hefðu gjarnan mátt lifa. Því miður voru ekki forsendur fyrir því og því fór sem fór. Hugur okkar er með starfsfólki,“ sagði Gylfi og kvaðst vona að það tækist að vinna úr þeim málum með góðum hætti. Tók hann fram að einhver hluti starfsmanna SPRON flytjist yfir til Nýja Kaupþings en það geti ekki orðið stór hluti.

Gunnar Haraldsson, formaður stjórnar Fjármálaeftirlitsins, sagði á blaðamannafundinum að vegna vandamála með eiginfjárstöðu og ekki síst lausafjárstöðu þessara tveggja fjármálafyrirtækja hafi verið of mikil áhætta í kerfinu, að mati Fjármálaeftirlitsins og Seðlabankans. Reynt hafi verið að finna lausnir en niðurstaðan hafi verið að grípa til þessarar neyðarráðstöfunar þar sem aðrar leiðir hafi ekki verið færar. Gat hann þess að Fjármálaeftirlitið hefði fengið bréf frá stjórnun SPRON og Sparisjóðabankans þar sem mælst er til að rekstur þeirra verði tekinn yfir.

Tryggja rekstur sparisjóðanna

Gylfi sagði frá því að gripið yrði til aðgerða til að tryggja rekstur ellefu sparisjóða. Það eru Byr, Sparisjóður Bolungarvíkur, Sparisjóður Höfðhverfinga, Sparisjóður Keflavíkur, Sparisjóður Mýrasýslu, Sparisjóður Norðfjarðar, Sparisjóður Suður-Þingeyinga, Sparisjóður Strandamanna, Sparisjóður Svarfdæla, Sparisjóður Vestmannaeyja og Sparisjóður Þórshafnar.  Sagði ráðherra að stjórnvöld teldu að með viðeigandi ráðstöfunum yrði áframhaldandi rekstur þessara sparisjóða tryggður.

Samkvæmt neyðarlögunum er ríkinu heimilt að leggja fram allt að 20% eiginfjárframlag til sparisjóða. Sex hafa þegar óskað eftir þessari aðstoð.

Sagði Gylfi að með þessum aðgerðum væri styrkari stoðum skotið undir bankakerfið og kostnaður ríkissjóðs yrði innan þeirra marka sem fjárlög heimila. Hann gat þó ekki nefnt heildartölur um áætlaðan kostnað. 

„Við teljum að með þessu séum við að mestu búin að sjá fyrir endann á þeim áföllum sem dundu yfir okkur síðastliðið haust,“ sagði Gylfi Magnússon.

Gert er ráð fyrir því að umræða verði á Alþingi á mánudag um ráðstafanirnar.

SPRON
SPRON
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka