Baugur Group skuldar klúbb enska knattspyrnuliðsins Newcastle United 225 þúsund pund, rúmar 37 milljónir króna, vegna leigu á stúku á velli liðsins St James. Þetta er meðal þess sem finna má á lista yfir kröfur í bú Baugs í Bretlandi samkvæmt frétt í Sunday Telegraph.
Eigandi klúbbsins, Mike Ashley, er þekktur kaupsýslumaður í breska verslunargeiranum.
Stöðumælasektir Jóns Ásgeirs
Á listanum eru kröfur af ýmsum toga að finna, samkvæmt frétt Sunday Telegraph. Má þar nefna stöðumælasektir Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, stjórnarformanns Baugs, vegna lúxusbifreiðar sinnar. Alls nema kröfur Lundúnaborgar vegna þessa í búið 600 pundum. Segir í Telegraph að um fimm stöðumælasektir sé að ræða og eru þær skilgreindar í skjölum bússtjóra sem „Stöðumælasektir vegna Bentleys Jóns".
Eins skuldar Baugur blómabúð í Mayfair 480 pund, ferðaskrifstofu 5000 pund og fiskibúrafyrirtæki 500 pund. En í höfuðstöðvum Baugs á New Bond Street var að finna risastórt fiskabúr sem hefur vakið verulega athygli breskra fjölmiðla.Eins skuldar Baugur breska farsímafyrirtækinu O2 300 pund vegna farsíma í eigu fyrrverandi eiginkonu Jóns Ásgeirs og annað eins vegna farsíma barna Jóns Ásgeirs.
Eins virðist Baugur eiga eftir að greiða þúsundir punda áheit sem fyrirtækið skráði sig fyrir hjá sjóði sem er ætlað að aðstoða krabbameinsjúk börn. Er það sjóður sem Karen Millen stofnaði árið 2007.
En það er fasteignafyrirtæki sem á stærstu kröfuna á þeim lista sem Telegraph hefur undir höndum en Baugur skuldar félaginu hundruð þúsunda punda fyrir leigu á skrifstofu fyrirtækisins í Mayfair.