Öllum útibúum SPRON verður lokað og viðskiptavinum beint til Nýja Kaupþings. Á þriðja hundrað manns missa vinnuna samtals í Sparisjóðabankanum og SPRON í kjölfar þess að Fjármálaeftirlitið (FME) tók yfir starfsemina hjá báðum fyrirtækjum.
„Mér sýnist á öllu að meirihlutinn missi vinnuna,“ segir Friðbert Traustason, framkvæmdastjóri Starfsmanna fjármálafyrirtækja (SSF), um yfirtöku SPRON og Sparisjóðabankans. Um 180 manns unnu hjá SPRON og færist hluti þeirra yfir til nýrra starfa hjá Nýja Kaupþingi og einhverjir munu sinna ráðgjafarstörfum hjá skilanefnd. 60-70 manns unnu hjá Sparisjóðabankanum. Á þriðja hundrað bankamenn eru því að bætast við þá 1.300 sem nú þegar eru atvinnulausir. „Ég hugsa til þess með hryllingi að þetta skuli gerast. [...] Ef við tökum fjölda starfsmanna í bönkunum áður en þessi bóla fór af stað þá voru starfsmenn í bönkunum rúmlega 4.000 talsins, áramótin 2003-2004,“ segir Friðbert. Hann segir að næstu skref hjá SSF séu að tryggja áunnin réttindi þeirra starfsmanna sem missa vinnuna.
Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.